01.06 2012 Leggur líf og sál í myndlistina (Fréttatíminn)

Sævar Karl ÓlasonÉg er enn ungur og ferskur og fullur af hugmyndum og energí,“ segir Sævar Karl Ólason listmálari.

Sævar Karl opnar sýningu á verkum sínum á laugardag í Listamenn gallerí að Skúlagötu 32. Sýningin ber yfirskriftina Nekt og meira en á sama tíma verður Sævar með sýninguna Kroppar á Mokka. „Á sýningunni eru myndir sem ég hef unnið á síðustu tíu mánuðum. Þær eru byggðar á teikningum af nöktum módelum, módelteikningum, sem ég hef unnið að í München. Teikningarnar verða til sýnis á Mokka,“ segir Sævar.

Sævar Karl var um langt árabil kunnur kaupmaður. Hann seldi herrafataverslun sína árið 2007 og hefur síðan þá verið búsettur, ásamt Erlu Þórarinsdóttur eiginkonu sinni, til skiptis í München og Reykjavík.
„Ég var alltaf mjög vinnusamur og tók mér sjaldan frí. Ég seldi áður en allt fór til andskotans og þá tók annað við hjá mér. Undanfarin fjögur ár hef ég verið með hugann við málaralistina. Mér finnst þetta svo skemmtilegt og það á að sjást í litanotkuninni og pensilstrokunum,“ segir Sævar Karl.

Aðspurður segist Sævar hafa mótast nokkuð af dvöl sinni í Þýskalandi. „Vissulega smitast ég af Þjóðverjum. Þeir eru meistarar í málverkinu og hafa verið um aldir.“ En þó þau hjónin njóti dvalarinnar meðal þýskra togar fósturjörðin alltaf í þau: „Á sumrin er hvergi betra en að vera hér. Veðurfarið og birtan eru yndisleg.“
Sævar Karl hefur haldið nokkrar sýningar undanfarin ár í Þýskalandi og Austurríki auk sýningar á Sólon. En þetta er hans stærsta sýning til þessa. Til marks um það pantaði hann galleríið fyrir einu og hálfu ári og hefur verið með hugann við sýninguna allan þann tíma. Stefan Zeiler, lærifaðir Sævars, skrifar innblásin inngangsorð í glæsilega sýningarskrá sýningarinnar. „Ég legg allt í þetta – líf og sál,“ segir listamaðurinn.
Allar myndir á sýningunni eru til sölu og Sævar Karl er spenntur að sjá hver viðbrögð fólks verða: „Það er gaman að fá þetta tækifæri til að kynna mína list – að leyfa fólki að sjá hvað ég er að gera.“
Höskuldur Daði Magnússon
hdm@frettatiminn.is

http://www.frettatiminn.is/daegurmal/leggur_lif_og_sal_i_myndlistina