19.10.2012 Hugleikur og Sævar Karl sýna á Höfðatorgi

Sævar Karl Muses.is Október 2012POP UP SJÖUNDA SÝNING MUSES.IS

Rakel Sævarsdóttir skipuleggur pop up-sýningu með nítján listamönnum á nítjándu hæð Höfðatorgs um helgina. Hér gefur að líta verk Sævars Karls. Ljósmynd/Hari

„Staðsetningin er alveg frábær. Það er bæði hægt að dást að útsýninu inni og úti,“ segir Rakel Sævarsdóttir sem skipuleggur sjöundu pop up-sýningu Muses.is um helgina. Sýningin verður haldin á nítjándu hæð turnsins á Höfðatorgi.

Muses.is er gallerí á netinu en Rakel hefur einnig leitað leiða til að koma listamönnum á framfæri með „físískum“ sýningum. „Við höfum farið þá leið að leita uppi tóm spennandi iðnaðarhúsnæði á ýmsum stöðum í borginni. Áhuginn er alltaf að aukast og listamennirnir hafa líka tekið þessu vel. Þeim finnst gaman að prófa eitthvað nýtt,“ segir Rakel.

Sýningin verður opnuð í kvöld, föstudagskvöld, klukkan 19. Hún verður svo opin laugardag og sunnudag frá klukkan 13-18. Ókeypis er inn og allir velkomnir. Listamennirnir sem sýna eru Bergþór Morthens, Björn Árnason, D. Íris Sigmundsdóttir, Halldór Sturluson, Harpa Rún Ólafsdóttir, Hugleikur Dagsson, Hulda Hlín Magnúsdóttir, Inga María Brynjarsdóttir, Kalli Youze, Kristinn Már Pálmason, Ninna Þórarinsdóttir, Sara Oskarsson, Sylvía Dögg Halldórsdóttir, Sævar Karl Ólason, Sævar Jóhannsson, Víðir Mýrmann, Þorvaldur Jónsson, Ziska og Örn Tönsberg.

„Nú er talan nítján allsráðandi. Þetta er haldið á nítjándu hæðinni, það eru nítján listamenn sem sýna nítján málverk, sýningin opnar nítjánda október klukkan nítján og svona mætti áfram telja,“ segir Rakel.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@frettatiminn.is